Nafn nemanda: Helga Þórunn Óttarsdóttir
Staðsetning: Boston, MA, Bandaríkin
Skóli: Brigham and Women’s Hospital í samvinnu við Harvard Medical School
Nafn leiðbeinanda: Jón Ívar Einarsson
Heiti verkefnis: Trends in mode of hysterectomy after the U.S. Food and Drug Administration power morcellation advisory
Stutt lýsing á rannsóknarverkefni: Þetta var afturskyggn ferilrannsókn sem náði til allra sjúklinga sem fóru í legnám vegna góðkynja ábendinga á Brigham and Women’s Hospital frá 2013-2015. Árið 2014 gaf Food and Drug Administration í Bandaríkjunum út ábendingar sem vöruðu við notkun hakkavéla við legnám kvenna með góðkynja vöðvahnúta. Markmið rannsóknarinnar minnar var að athuga hvort þessar ábendingar hefðu haft áhrif á aðgerðartækni, fylgikvilla, innlagnartíma og fleiri þætti í sambandi við aðgerðina.
Hvernig fékkstu rannsóknarverkefnið? (hafðir beint samband við skóla eða leiðbeinanda í landinu, var bent á leiðbeinanda/skóla af kennara/lækni hérna heima) Ég var búin að ákveða að mig langaði að gera BS verkefni í Bandariḱjunum svo ég ákvað að hafa samband við nokkra lækna sem ég vissi að höfðu annað hvort lært í Bandarikjunum eða þá sem voru ennþá úti og spyrja þá hvort þeir hefðu eitthvað verkefni fyrir mig eða einhver tengsl þannig að þeir gætu hjáĺpað mér að finna verkefni innan sama spítala. Á endanum voru tveir sem buðu mér verkefni og ég valdi að fara til Boston.
Hvernig líkaði þér skólinn, leiðbeinandinn og rannsóknarvinnan?Rannsóknarvinnan fór mest fram í Excel og fóru fyrstu sex vikur tímabilsins mest í að safna gögnum. Ég var svo heppin að hafa tölfræðing á mínum snærum sem fékk gögnin í hendurnar þegar þau voru tilbúin. Ég byrjaði þá að vinna í ritgerðinni sjálfri og meðfram því að gera drög að grein um rannsóknina. Ég hitti síðan lækninn sem var yfir rannsóknum deildarinnar nokkrum sinnum á tímabilinu og við ræddum framgang verkefnisins. Það var gaman að fá tækifæri til að vinna á svo stórum og flottum spítala. Ég mætti á hádegisfyrirlestra tvisvar í viku og auk þess stóð það mér til boða að fara í aðgerðir með skurðlæknum deildarinnar. Á þeim tíma sem ég var úti voru tvær aðrar stelpur að vinna í rannsóknum á deildinni og þær voru mér ómetanlegur félagsskapur.
Annað sem þú vilt koma á framfæri? Þessar tíu vikur voru líklega einn skemmtilegasti og lærdómsríkasti tími lífs míns. Það var frábært að komast í allt annað umhverfi og þurfa að standa á eigin fótum. Ég myndi klárlega mæla með því að nýta þetta einstaka tækifæri til að fara út. Eftir þetta hef ég nú birt grein í erlendu tímariti, flutt fyrirlestur um verkefnið bæði á ráðstefnu í Brussel og á skurðlæknaþingi hér heima.
Það er flókið að fara til Bandaríkjanna í sambandi við pappírsvinnu og leyfi en ég myndi alls ekki setja það fyrir mig og byrja bara snemma að skipuleggja.
Ef það eru einhverjar spurningar þá bara endilega hafa samband við mig.