FINO 2014

Heil og sæl!

Nú um helgina verður haldin samnorræn ráðstefna læknanema, FINO, á Úlfljótsvatni. Í ár verður þema ráðstefnunnar “Nýting erfðafræði í læknisfræði” og von er á tæplega 50 læknanemum frá Norðurlöndunum hingað til lands.

Nú stendur íslenskum læknanemum til boða að koma á ráðstefnuna. Boðið er upp á gistingu, mat, fræðslu og skemmtun gegn vægu gjaldi, 2500 kr/dag.

Dagskrá ráðstefnunnar hefst föstudagsmorguninn 7. nóvember og munu okkar fremstu vísindamenn á sviði erfðalæknisfræðinnar fræða okkur og ræða klínísk, fræðileg og siðfræðileg vandamál sem við gætum staðið frammi fyrir í náinni framtíð.

Á föstudags- og laugardagskvöld er í boði skemmtun fram á rauða nótt. Ekki gleyma illmennabúningnum og rúllukragapeysunni.

Fyrir þá sem hafa áhuga, sendið póst á finoconference2014@gmail.com.
Við svörum öllum spurningum hið snarasta

Kveðja,
FINO nefndin

Skiptinám til Bandaríkjanna næsta sumar

Kæru læknanemar!

Næsta sumar býðst einstakt tækifæri til þess að fara í skiptinám á vegum Alþjóðanefndar til fyrirheitna landsins. Bandaríkin hafa gríðarlega mikið upp á bjóða allt frá hvað bestu háskólasjúkrahúsum í heimi til fallegrar náttúru og heillandi menningar. Stefni svo einhver á að fara í sérfræðinám vestur um haf er heldur ekki vitlaust að afla sér nokkurra tengiliða og mögulega meðmælendur í landinu.

Skilafresturinn til þess að sækja um skiptin er kl. 23:59 þann 10. október næstkomandi og því er um að gera að hafa hraðar hendur. Senda skal póst á imsiciceland@gmail.com þar sem tekið er fram bæði nafn, kennitala og námsár. Skilyrði fyrir skiptináminu má finna hér og sé eitthvað óljóst ekki hika við að hafa samband.

,,Take it easy
Alþjóðanefnd

Skiptatímabilinu lokið

Kæru læknanemar, þá er ágústmánuður á enda og seinna skiptatímabilinu lokið.

Við viljum þakka kærlega öllum þeim sem lögðu hönd á plóg í sumar og sérstaklega því duglega fólki sem voru tengiliðir. Að baki er metnaðarfullt prógram með fjölmörgum skemmtilegum ferðum og viðburðum. Við vonum að íslenskir læknanemar hafi myndað tengsl við skiptinemana sem haldast þó svo að þeirra skiptinámi sé lokið.

Einnig viljum við þakka Landspítala fyrir að taka á móti nemunum í júlí- og ágústmánuði og veita okkur aðstoð í að halda þessari starfssemi úti. Með því er hann að rækja skyldu sína sem háskólasjúkrahús og kynna sjálfan sig og íslenskt heilbrigðiskerfi fyrir verðandi læknum út í heimi.

Jafnframt gefur Landsspítali íslenskum læknanemum tækifæri að fara í skiptinám út í hinn stóra heim og afla sér reynslu og þekkingar. Nú eru þau hins vegar aftur komin heim til Íslands þar sem skólaárið er hafið hjá Læknadeild Háskóla Íslands.

Við munum eftir fremsta megni safna saman reynslusögum og ljósmyndum úr skiptináminu auk ljósmynda úr starfi sumarsins og bæta þeim inn á vefsíðuna á næstunni ykkur til fróðleiks og yndisauka!

Bestu kveðjur, Alþjóðanefnd

NorWHO ráðstefna 13. – 16. ágúst í Kaupmannahöfn

Óskað hefur verið eftir fulltrúum frá Íslandi til þess að fara dagana 13. – 16. ágúst til Kaupmannahafnar og taka þátt í NorWHO ráðstefnunni. Þema ráðstefnunnar í ár er: ,,Loftslagsbreytingar og heilsa”.

Ráðstefnan líkir eftir ráðstefnu (World Health Assembly) sem haldin er árlega af alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO). Þar fara ráðstefnugestir í hlutverk sendifulltrúa frá ríki í Sameinuðu þjóðunum (UN), sjálfstæðum alþjóðasamtökum (non-governmental organizations) eða lyfjafyrirtækjum. Síðan taka við samningaviðræður og hagsmunagæsla þar til ráðstefnan hefur samið ályktun sem hún sendir frá sér.

Vonir standa til að þáttakendur ráðstefnunnar átti sig betur á því hvernig mótun heilbrigðisstefnu fer fram og þeim ferlum sem þar liggja að baki. Á ráðstefnunni verða einnig haldnir fyrirlestrar og þjálfun á ýmsum þáttum í heilbrigðispólitík.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar eða á fésbókinni. Fresturinn til að greiða sig inn á ráðstefnuna rennur út 4. ágúst.

Sumarkveðjur, Alþjóðanefnd

Skipti fyrir sumarið 2015!

Kæru læknanemar!
Nú fer að líða að því að gerðir verða samningar fyrir skipti næsta sumars. Við viljum biðja þá sem stefna á skipti sumarið 2015 að leggja höfuðið í bleyti sem fyrst! Þeir sem vilja leggja fram óskir um áfangastað vinsamlegast sendið tölvupóst á arj32@hi.is (Árni) í síðasta lagi 20.júlí. Eins og flestir vita hafa þeir forgang sem hafa tekið virkan þátt í starfi Alþjóðanefndar sem tengiliðir eða með öðrum hætti, en við hvetjum samt alla áhugasama um að láta okkur vita um draumaáfangastaðinn og við gerum okkar besta. 
Hér að neðan má sjá lista yfir þau lönd sem eru í boði:
http://www.ifmsa.net/public/ecscopeselect.php

Vonandi er sumarið að fara vel með fólk, hafið það gott og njótið frísins!

Alþjóðanefnd

Helgarferð alþjóðanefndar 11. – 13. júlí

Sæl öll, hérna koma upplýsingar um helgarferðina í júlímánuði. Ráðgert er að fara næstu helgi, brottför á föstudegi en heimkoma á sunnudegi.

Föstudagur: lagt af stað frá Reykjavík og keyrt um Þingvelli í átt að Geysi. Þar verður tjaldað en hægt að borða og hafa það huggulegt inn í nærliggjandi sumarhúsi. Mikilvægt að allir séu með tjald og svefnpoka.  Um kvöldið getum við keyrt með skiptinemana upp að Gullfossi og sýnt þeim Hvítárgljúfur, grillað síðan og djammað eftir það.

Laugardagur: keyrt um hreppanna en þar er ýmislegt að sjá, t.d Þjórsárdalur, Hjálparfoss, Hrunalaug, Hekla, mögulega Háifoss (fer eftir hvernig bílum fólk er á) og fleira eftir tíma og veðri. Um kvöldið verður gist á Hamarsheiði í Gnúpverjahrepp. Þar eru 4 herbergi með tvíbreiðum rúmum, 2 tveggja manna herbergi og svefnloft sem tekur 5 manns. Ef okkur finnst of þröngt á þingi er líka hægt að gista á næsta bæ eða tjalda í garðinum. Á Hamarsheiði er grill og heitur pottur og reynt verður að slá pottametið frá því í fyrra.

Sunnudagur: Hestaferð á Stóra Núpi fyrir þá sem hafa áhuga. Mikilvægt að vera vel klæddur. Eftir það verður lagt af stað í bæinn. Ýmislegt hægt að skoða á leiðinni heim en við getum látið það ráðast eftir því hvað fólk hefur tíma í en sumir þurfa að komast á kvöldvakt á sunnudagskvöldinu. Ef þið hafið einhverjar spurningar eða athugasemdir varðandi þetta plan endilega hafa samband.

Sumarkveðjur,

Alþjóðasamtök um læknisfræðimenntun styðja læknanemaskipti

Nýverið sendu alþjóðasamtök um læknisfræðimenntun (World Federation for Medical Education) frá sér stuðningsyfirlýsingu við læknanemaskipti á vegum alþjóðafélagasamtaka læknanema (International federation of Medical Student’s Associations).

Þar kemur fram að faglega sé að skiptunum staðið og þau vel skipulögð, akademískur ávinningur sé góður og læknaskólar hvattir til þess að sýna þeim stuðning. Víða eru skiptin metin til háskólaeininga (ECTS units) og koma því inn sem hluti af formlegu læknanámi.

Við viljum þakka fyrir þessa góðu viðurkenningu á okkar starfi og bíðum spennt eftir að fyrstu skiptinemar koma i hús núna í júlí.

Tengiliðaskráning fyrir sumarið 2014

Kæru læknanemar!
Nú er komið að því sem margir hafa beðið eftir!
Í dag og á morgun (7. og 8. maí) verður skráning til þess að verða tengiliður nú í sumar!
Hægt er að skrá sig sem tengiliður annaðhvort í júlí eða ágúst, en 11 tengiliðir komast að í júlí og svo 12 tengiliðir í ágúst.

En hvað er tengiliður og hvað þarftu að gera?
Hlutverk tengiliðs er að sækja skiptinemann sinn á BSÍ við komu og brottför og vera honum innan handar. Síðan eru alls kyns viðburðir um sumarið, til dæmis helgarferð, alþjóðakvöld o.fl. sem tengiliðir eru hvattir til þess að taka þátt í.
Það að vera tengiliður gefur þér ómetanlegt tækifæri til þess að kynnast öðrum læknanemum frá öllum hornum heimsins, einnig fá þeir sem eru virkir í tengiliðastarfinu forgang við val á skiptinámi sem þeir fara í seinna!

Nánari upplýsingar um tengliðastarfið (ásamt reynslusögum fyrrv. tengiliða) og skiptin má finna hér á heimasíðu alþjóðanefndar, www.imsic.org

Í stuttu máli:
Miðvikudaginn 7. maí klukkan 17 er tengiliðaskráning fyrir júlí
Fimmtudaginn 8. maí klukkan 17 er tengiliðaskráning fyrir ágúst

Alþjóðanefnd 

Sumarið nálgast

Kæru læknanemar!

Nú hef ég farið í yfirhalningu fyrir sumarið og ýmsir þættir hafa verið færðir hér inn sem eiga vafalaust eftir að fræða og kæta.

Helst ber að nefna æsispennandi reynslusögur skiptinema og tengliða síðasta sumars. En einnig stórskemmtilegan myndabanka, snarmeitlað lagasafn, alþjóðlegar áskoranir o.ý.fl.

Þá hafa verið tekin saman B.S. – rannsóknarverkefni sem unnin hafa verið á erlendri grundu undanfarin ár, bæði kynning á verkefninu sjálfu og umsögn nemenda um dvölina!

Ég veit það eru allir eru að missa sig yfir tengiliðaskráningunni 7. og 8. maí. Vá hvað ég ætla að skrá mig! Sjáumst þar 😉