Belgía 2016

Mynd: Hópurinn fyrsta daginn. Eina vantar á myndina.
Þann 2. júlí 2016 hélt ég til Belgíu, nánar tiltekið Gent [Ghhhhrrrrreeeeent]. Gent er í flæmska hluta Belgíu og þar er aðallega töluð hollenska. Flestir tala frönsku og nánast allir góða ensku. Gent er um 250 þúsund manna borg og fræg fyrir fallegan gamla hluta þar sem má sjá hús frá 16.öld. Ég fór á æða- og brjóstholskurðdeild á háskólasjúkrahúsinu og fékk að vera þar í mánuð.
Félagslífið
Þegar ég kom til landsins var tekið vel á móti mér en annar tveggja tengiliða minna, Sara, kom og sótti mig á flugvöllinn og bauð mér í hjólaferð um Gent til að sýna mér það helsta.
Hún bauð mér einnig heim í mat sem var frábært. Daginn eftir var innskiptastjóri BeMSA ásamt mörgum í nefndinni búin að útbúa morgunverðarhlaðborð til að bjóða alla skiptinemana velkomna.

Myndir: Morgunverðarhlaðborðið og miðbær Gent.
Á meðan skiptunum stóð voru skipulagðar ferðir hverja helgi. Við heimsóttum meðal annars borgirnar Antwerp, Brussel, Bruges, Leuven og Ostend. Lestarkerfið í Belgíu er frábært og við gátum fengið mánaðarkort ódýrt. Í klassískri borgarferð í Belgíu er rölt um gullfallega gamla bæinn og skoðuð hús frá sextándu öld. Hefðin er að fá sér belgískar franskar og einn bjór (oftast einhvern sem borgin er þekkt fyrir). Gott að hafa það á hreinu að Belgar fundu upp franskar kartöflur. Þetta er mikið hitamál og þeim er verulega niðri fyrir þegar þeir tala um þetta. Því er gott að hafa í huga að fara ekki að tala um „french fries“ ef þið hittið Belga. Að öðru leyti eru Belgar mjög afslappaðir og skemmtilegir.

Mynd: Belgar vilja helst djúpsteikja allt. Hér má sjá safn af óræðum hlutum sem hægt er að djúpsteikja og kaupa með frönskunum. Hátt kólesteról í blóði er mikið vandamál í Belgíu. Mynd til hægri: Kræklingar með frönskum og majó – hálfgerður þjóðarréttur.

Mynd: Anatomical theatre Vesaliusar í Leuven. Upprunalega byggingin fyrir pílagríma í læknisfræði.

Mynd: Gent séð frá virkisvegg Gravensteen, virki frá miðöldum og síðar fangelsi.
Ganzendries 48
Við vorum sjö saman og bjuggum í tveimur húsum með 100 m millibili. Allir fengu lítið stúdíóherbergi með rúmi, skrifborði, eldavélahellum og ískáp. Það var mjög fínt að hafa prívat herbergi en í staðinn höfðum við ekki neitt sameiginlegt rými. Í staðinn nýttum við að mikið var af sætum litlum börum í nágrenninu þar sem hægt var að sitja úti.
Við vorum í nokkra mínútna göngufjarlægð frá aðallestarstöðinni (þar sem hægt var að taka lest til flestra borga Belgíu á undir 2 klst). 15 mín göngufjarlægð frá spítalanum eða 5 mín í sporvagni. Við vorum í 25 mín göngufjarlægð frá miðbænum en einnig var mjög stutt að taka sporvagn eða strætó ef við vorum seint á ferðinni. Við fengum kort í sporvagnana í Gent frá nefndinni. Í stuttu máli: Við vorum frábærlega staðsett og stutt í allt sem okkur datt í hug.

Mynd: Rétt hjá okkur var yndislegur lítill garður sem margir skokkuðu eða slökuðu á og lásu bók.
Spítalinn
Spítalinn samanstóð af nokkrum húsum á stóru svæði. Sporvagn fór bókstaflega upp að dyrum aðalinngangsins (frábærar samgöngur) sem var nýttur af starfsfólki, aðstandendum og sjúklingum. Ég var að mestu leyti í sérhúsi þar sem allar skurðstofurnar voru (virkilega flottar). Í Belgíu er skýr goggunarröð en læknarnir leggja mikið upp úr því að nemar fái tækifæri að læra. Ég var á mjög sérhæfðri deild svo ég fékk kannski ekki jafn mörg tækifæri að taka þátt í aðgerðum eins og þeir sem voru á almennri skurðdeild. En í staðinn fékk ég að sjá margar áhugaverðari aðgerðir. Þetta þarf hver og einn að meta fyrir sig. Þau kenndu mér að sauma og engu að síður fékk ég oft að skrúbba mig inn (GEGGJAÐ). Spítalinn var flottur og allt til alls. Læknar í Evrópu sækja mikið í að sérhæfa sig í Belgíu.

Mynd: Skurðstofan þar sem ég var mest að fylgjast með. Æðagúllsaðgerð.

Mynd: Hér má sjá barnaspítalann og brú yfir í næsta hús. Bak við brúnna sést sporvagninn en aðalinngangurinn er í hærra húsinu á bak við.

Mynd: Frederick, 7. árs neminn, og Vicky, deildarlæknirinn, sem voru yndisleg!
„You’re SO LUCKY that you are here during the festival!!!“
Síðast en ekki síst: GENTSE FEESTEN. Hugsanlega flestir, hugsanlega allir sögðu þetta við okkur í Gent í júlí. Stolt þeirra Gent-búa er 10 daga festival 15.–25.júlí. Engin veit hvert upphaf hátíðarinnar var. Útitónleikar, götulistamenn og matarstandar troðfylla miðbæ Gent í 10 heila daga. Fjölskyldufólk sötrar bjór og svo er hægt að skella sér í útisalsatíma. Á kvöldin fyllist allt af ungu fólki að skemmta sér. Gent er háskólaborg svo að á sumrin „tæmist“ hún þar sem háskólanemarnir fara heim til sín en svo troðfyllist borgin aftur á festivalinu.
Gent er virkilega skemmtilegur staður að vera á sem og Belgía í heild sinni. Þetta er ekki mest framandi staður sem hægt er að fara í skipti en mér fannst frábært að fá að kynnast flottu heilbrigðiskerfi í Evrópu. Spítalinn er flottur, þú færð tækifæri til að læra í góðum aðstæðum, félagslífið frábært og Belgar eru afslappaðir og skemmtilegir, borða franskar og drekka bjór. Ekki má gleyma heimsfræga belgíska súkkulaðinu. Ef þetta er eitthvað sem að höfðar til þín mæli ég hiklaust með því að þú lítir nánar á Evrópukortið og skellir þér til Belgíu.

Mynd: Nina, ég og Nacho. Vinir fyrir lífstíð!