Ég ákvað þótt enn sé ung að árum og eigi margt ólært að skrá mig í skiptinám. Höfðu þegar verið gerðir nokkrir einhliða samningar svo að ég gat valið milli margra landa. Valdi ég Danmörku því langt síðan ég hafði dvalið þar yfir í lengri tíma. Ég kláraði stúdentsprófsáfangana í dönsku áður en ég byrjaði í menntaskóla svo það var margt sem þurfti að rifja upp. Samt sem áður, eftir aðeins nokkra daga úti var ég smám saman farin að hugsa á dönsku og mér hrósað fyrir góða dönsku. Allir á spítalanum töluðu dönsku við mig og gekk það mjög vel. Ég lenti um kvöldmatarleytið á sunnudegi og var þá sýnd íbúðin og hvernig ég ætti að komast á spítalann og mér sagt að Danir eru mikið fyrir stundvísi og lítið formlegir. Á mánudeginum kom ritari og sýndi mér hvar línið var og hvernig það virkaði. Ef þið hafið séð sjálfvirku vélarnar á bókasöfnum þá var þetta nákvæmlega eins.
Bispebjerg spítali er einn elsti spítali Kaupmannahafnar og er frá 1913 og um 3 km fyrir norðan Rigshospitalet. Þegar langafi minn stundaði handlækningar þá var hann þarna á ferðinni áður en hann hélt til Noregs og seinna Vínarborgar. Hugsaði ég til hans á hverjum degi og ímyndaði mér hvernig þetta hefði litið allt saman út. Það er mikið af grænum svæðum, sjá má dúfnaholur í veggjunum og fyrstu gerð af Gefjunarbrunninum. Spítalinn samanstendur nefnilega af mörgum byggingum sem tengdar eru með neðanjarðargöngum. Þar mátti nær alltaf rekast á portöra eða þá sem flytja sjúklinga á milli bygginga og allt sem þarf til allt gangi. Gangarnir neðanjarðar litu út eins og hjólreiðastígar í Danmörku. Breiði hlutinn var fyrir ökutæki en hinn fyrir þá sem voru gangandi. Bæklunarskurðlækningar eru í byggingu 7 en hún er frá treserne og á víst að rífa niður. Á meðan ég var úti var verið að rífa eina aðra niður og en þetta ferli tekur allt sinn tíma og í einu vaktherbergjanna stóð: „Ef Róm hefði verið byggð á einum degi hefðum við ráðið verktakann“.
Í lok fyrstu vikunnar lærði ég svo hvernig farið er í vask og fékk að taka þátt í aðgerðum. Vikuna eftir fóru margir í sumarfrí og erfitt að finna einhvern sem kannaðist við hvar íslenski læknaneminn ætti að vera. Svo þá var það eina í stöðunni að skapa sín eigin tækifæri og lærði ég betur að það borgar sig að sýna frumkvæði jafnvel þó að maður sé gestur. Í þessari sömu viku var meira um hittinga meðal hinna stúdentanna en nær helmingur okkar sem voru úti voru í SCORE eða rannsóknar prógrammi. Það var gaman að kynnast þeim öllum og voru þau frá Taiwan, Indónesíu, Frakklandi, Kanada, Tyrklandi og Filippseyjum. Við hittum tengiliðina okkar mjög sjaldan en þau voru til taks ef á þyrfti að halda og voru þau mjög almennileg. Ég eldaði oft með vinum mínum Han og Kevin frá Taiwan og Sefrinu frá Indónesíu. Þau kenndu mér um margt um menningu og tungumál þeirra og í staðinn kenndi ég þeim íslensku og dönsku. Það var mjög skemmtilegt því það var svo margt svipað en á sama tíma ólíkt. Opnaðist þarna nýr heimur fyrir mér og gerðum við margt skemmtilegt saman og á þessum tímapunkti fór ég að átta mig á að þessi „langa“ dvöl væri alltof stutt.
Síðustu tvær vikurnar liðu mjög hratt og þjálfaðist ég betur á spítalanum. Sefrina frá Indónesíu sem var á sama spítala hafði sett bæklunarlækningar í fyrsta sæti og ég svæfingalækningar en við enduðum akkúrat öfugt. Samt sem áður vorum við mjög sáttar og kenndum hvor annarri í hádegismatnum. Í síðustu vikunni var svo komið að lokakvöldverðinum og hjálpaði hún mér að búa til skyrköku kvöldinu áður og vakti hún mikla lukku. Þetta er einungis örstutt brot af því sem gerðist. Á sama tíma og ég lærði um hugsanir, gildi og menningu annarra þjóða komst ég að mörgu um okkar eigið umhverfi hér á Íslandi. Að lokum langar mig til að enda á orðum Finna sem fór í skiptinám til Indónesíu. Ef þú ert að velta því fyrir þér hvort þú eigir að fara þá er ég með svarið fyrir þig. „Just go!“. Og það er satt. Þú getur ekki ímyndað þér hverju þú átt von á. Hafðu bara hugann opinn.