Höfundur: Inga Hlíf Melvinsdóttir
Land brosandi fólksins, land injeru (súrdeigsbrauð, sem er með nánast öllum mat í Eþjópíu), land stórbrotinnar náttúru, heimaland Lucy-ar (fyrsti frummaðurinn) og svo margt, margt fleira. Því ekki að kynnast svona spennandi landi í gegnum Alþjóðanefnd læknanema
og upplifa meira en bara túristamenninguna?
Eftir dásamlegt flug með Ethiopian Airlines og 6 klst. keyrslu suður af Addis Ababa, höfuðborg Eþjópíu, í útkeyrðum míníbus, komst ég til Hawassa. Þennan dag var rafmagnslaust, vatnslaust, internetslaust og ekkert símasamband í Hawassa, og það var ekki óalgengt! Dawit, tengiliðurinn minn, tók á móti mér og tók mig strax í vígsluathöfn nýrra læknanema í Hawassa School of Medicine. Ég var EINA hvíta manneskjan og ég held að ég hafi verið sjálflýsandi því allir gláptu á mig, og brostu.
Samskiptamálið í heilbrigðisgeiranum er enska í Eþjópíu. Stofugangar, morgunfundir, sjúkraskrár, rannsóknarsvör og kennsla er á ensku, sem var auðvitað mjög hentugt fyrir útlending (faranji) eins og mig. Ég byrjaði morgnana á morgunfundi skurðdeildarinnar
þar sem sérfræðingarnir og deildarlæknarnir grilluðu kandídatana og læknanemana úr innlögnum gærdagsins. Síðan fór ég á skurðstofurnar þar sem ég fékk að upplifa ótrúlega hluti. Orð eins og tækjaskortur, læknaskortur, lélegt húsnæði og lyfjaskortur hafa
öðlast nýja merkingu hjá mér.
Ég svaf á heimavist eingöngu fyrir læknanema á klínísku árunum, kallað Hvíta húsið, sem var á sama stað og sjúkrahúsið (Hawassa Referral Hospital). Á kvöldin fórum við niður í bæ og fengum okkur bjór, steiktan fisk, kitfo, doro wat, tips eða eitthvað annað eþjópískt lostæti.
Þessar 5 vikur á skurðdeild í Eþíópíu voru ógleymanleg og holl
lífsreynsla.