Höfundur: Fjóla Dögg Sigurðardóttir
Síðasta sumar fór ég á vegum alþjóðanefndar til borgarinnar St. Étienne í
Frakklandi. Borgin erum eina klukkstund frá stórborginni Lyon í miðhluta
landsins og þar búa um 180 þúsund manns. Ég dvaldi hjá franskri stelpu sem er
læknanemi við háskólann í St. Étienne og hóf sitt fjórða ár í náminu síðastliðið
haust. Spítalinn er frekar lítill á franskan mælikvarða samkvæmt því sem frönsku
nemendurnir sögðu okkur frá en við Sara Lillý Þorsteinsdóttir sem einnig dvaldi í
St. Étienne áttum í fullu fangi með að læra að rata um þennan “litla” spítala.
Ég var svo heppin að ég komst á deildina sem ég valdi mér fyrst eða á heila- og
taugaskurðdeild og fékk að aðstoða í fjölmörgum aðgerðum. Þar á meðal voru
aðgerðir á hrygg eftir alvarleg slys, aðgerðir á heilaæxlum, heilablæðingum og
ísetning ventla í heila og mænuvökvahólfin. Einnig fékk ég að fylgjast með í
mörgum aðgerðum, þar á meðal þar sem gervi höfuðkúpubeini var komið fyrir ásamt því að fylgja sérfræðingunum á legudeild og göngudeild. Ég reyndi eftir fremsta megni að nýta frönskukunnáttuna en viðurkenni fúslega að það var mis erfitt að spjalla við sérfræðingana á lélegu frönskunni minni og oft gripum við til enskunnar þegar það var hægt. Af einhverjum ástæðum höfðu þau mörg samt
lesið Arnald Indriðason svo að ef ég skildi ekkert hvað þau sögðu og enskan
þeirra var fátækleg var í það minnsta hægt að brydda upp á því umræðuefni og
hlusta á þau tala um hvað bækurnar hans væru spennandi. Ég kinkaði bara kolli
og þóttist hafa lesið þær líka.
Á spítalanum kynntumst við einnig því hvað það er að eiga endurnærandi
hádegismat en þar var m.a. óþekkt að læknarnir færu í skurðstofu fötunum í mat.
Hinsvegar skiptu allir í hversdagsfötin, skildu sloppa og slíkt eftir, skelltu greiðu í
gegnum hárið og settust niður í rólegheitum yfir dýrindis fisk, kjöti eða salati.
Það var ekki mikið um stuttar kaffipásur en á milli kl. 12 og 13 var allt að því
heilagur tími þar sem allir sérfræðingarnir, aðstoðarlæknarnir og við svöngu
læknanemarnir settumst í stóran matsal. Ekki skemmdi að í eftirétt var nánast
alltaf annað hvort dýrindis ostar eða súkkulaðimús.
Við kynntumst einnig mörgum skiptinemum frá öðrum löndum og þar má nefna
læknanema frá Frakklandi, Líbanon, Japan, Ungverjalandi og Króatíu. Það var
mikið um matarboð og hittinga á vegum frönsku læknanemanna en við fórum
auk þess tvisvar í ferð til Lyon sem er mjög skemmtilegt frönsk borg. Við
ferðuðumst einnig niður til Nice, Monaco og Cannes ásamt því að enda ferðina í
París.
Nemendaskiptin voru virkilega skemmtileg lífsreynsla. Bæði reynslan á spítalanum og jafnvel ekki síður það að kynnast öllum þessum frábæru læknanemum. Það eru forréttindi að fá að ferðast í ókunnugu landi með aðstoð þeirra sem þekkja vel til staðarhátta. Ég mæli með því að enginn læknanemi láti þetta einstaka tækifæri að fara í nemendaskipti á vegum alþjóðanefndar framhjá sér fara þar sem jafn ódýrt, skemmtilegt og gefandi lærdómstækifæri er erfitt að finna.