Indónesía 2015: Berglind Anna

Eftir að hafa dvalist með frábærum bekkjarfélögum í útskriftarferð bæði í Tælandi og Kambódíu hélt leiðin til Padang, Indónesíu þar sem ég dvaldi sem skiptinemi í einn mánuð. Kærasti minn, Þráinn, ákvað að koma með mér í þetta ævintýri og ég mæli klárlega með því, sérstaklega á svona framandi slóðum. Fyrstu þrjár vikurnar var ég eini skiptineminn á spítalanum. Það tóku allir vel á móti mér en töluðu þó misgóða ensku. Spítalinn er allt öðruvísi en maður hefur vanist hér heima. Alla ferðina fann ég 3 vaska, það voru flækingskettir á göngunum (greyin) og sjúklingar lágu 20 saman í óloftkældu herbergi. Þrátt fyrir þetta allt þá voru læknarnir klárir og áhugasamir um að fá að kenna mér. Það voru mikið af mjög langt gengnum sjúkdómum og sjúkdómum sem maður sér ekki hér heima. Æxli á stærð við höfuð og mikið af trauma eftir mótorhjólaslys. Ég valdi mér að vera á almennri skurðdeild, en dagurinn byrjaði eiginlega á því að ég gekk skurðganginn, sem hafði 12 skurðstofur, og valdi mér einfaldlega það sem mér fannst áhugaverðast þann daginn. Ég fékk oft að skrúbba mig inn og aðstoða við aðgerðir, t.d. fyrsta aðgerðin mín fékk ég að sauma 15 cm skurð eftir skurðaðgerð á heila undir handleiðslu læknisins. Það var samt aldrei þannig að maður hafði einhverja ábyrgð.

12188842_10207020992819777_200421867_n

Á þessum stað er sterk og mikil múslimatrú og þurftum við því að segjast vera gift svo við gætum fengið að gista á sama stað. Þannig keyptir voru hringir í stuttu stoppi í Kuala Lumpur og haldið á vit ævintýranna. Við gistum hjá mjög indælli fjölskyldu, þar bjuggu Mama, Papa og dóttir þeirra Hanna sem var sú eina sem talaði ensku. Þau höfðu verið mjög spennt að fá að hýsa okkur, til að mynda fyrstu dagana þá voru Anku (frændur) mikið að koma á meðan ég var á spítalanum og heimsækja Þráinn. Þá voru þeir jafnvel að fara með hann í skoðunarferðir um borgina. Þó svo að þeir töluðu eiginlega enga ensku þá þótti það örugglega flott að fá að hangsa með þessum risavaxna Íslending. Á meðan dvölinni stóð leið okkur mikið eins og mjög frægu fólki, þar sem allir vildu heilsa okkur, taka mynd eða bara sýna enskukunnáttu sína. Við komumst yfirleitt ekki meira en 10 skref á milli þess sem einhver veitti okkur athygli og allir alltaf rosalega vinalegir.

Við vorum á meðan Ramadan stóð yfir. Það var frekar erfitt að vera í starfsnáminu á meðan Ramadan stóð, það var ekki að finna neinn mat á spítalanum, þannig ég tók með mér vatn og hnetur sem ég stalst í þegar enginn sá til, því það er talið dónaskapur að borða eða drekka fyrir framan fólk sem er að fasta. Eftir spítalann var mjög takmarkað að gera fyrir okkur, við fórum stundum í sund á hóteli sem var þar eða röltum um og skoðuðum. Við nýttum helgarnar okkar vel til þess að fara út úr bænum. Þetta er alveg ótrúlega fallegt svæði og mikið hægt að skoða. Þannig ef einhver sem er að lesa þetta ákveður að fara á þennan stað þá mæli ég með því að vera rosalega opinn fyrir menningunni og sækjast sjálf eftir ýmsum hlutum. Ef ykkur langar að sjá ótrúlega hluti á spítalanum og fá að taka þátt þá mæli ég með þessum stað.

12188733_10207020995179836_931054639_n