Indónesía 2016: Helga Þórunn

Indónesía 2016: Helga Þórunn

Banda Aceh

 Ég fór til Banda Aceh í Indónesíu með Ágústi Inga, Kristjáni Orra og Jónasi Bjarti sem eru allir með mér í bekk. Ég held ég geti talað við fyrir hönd okkar allra að þetta hafi verið ótrúleg lífsreynsla sem við munum aldrei gleyma.

DSC_0101

Borgin

Banda Aceh er stór borg í norðri Indónesíu. Í borginni eru 98% af íbúum múslimar svo trúin er mjög mikill partur af lífi borgarinnar. Þar gilda sharía lög svo að reglurnar eru mjög strangar og sharía lögregla fylgist með að þeim sé hlýtt (við sáum hana samt bara einu sinni). Það eru engin bíó, leikhús, barir né klúbbar í Banda Aceh þar sem áfengi er bannað og það eru strangar reglur um samskipti fólks af gagnstæðu kyni. Aðalskemmtun fólks er að fara á kaffihús og situr þar langt fram eftir kvöldi.

Þessi borg er sú borg í Indónesíu sem fór verst út úr Tsunami sem skall á Asíu 26. desember 2004 svo í borginni er hægt að sjá Tsunami museum, bát sem er á þaki lengst inn í borg og fleira sem tengist þessum harmförum. Einnig er þarna mjög stór Moska sem er mjög falleg og gaman að skoða, götumarkaður í miðbænum og ótrúlega fallegar strandir í kringum borgina. Kannski best að nefna að á aðalströndunum má ekki vera í bikiní heldur eingöngu síðbuxum og bol sem hylur axlir svo ströndin er ekki beint til að fara í sólbað heldur til að njóta fegurðarinnar. Við gátum samt fundið leyniströnd þar sem við fengum að vera í bikiní svo það er allt hægt!

Rétt fyrir utan Banda Aceh er svo eyjan Pulau Weh sem er yndisleg. Við fórum tvisvar þangað í helgarferð og gistum á frábæru resorti þar sem áfengi var leyfilegt, við máttum vera á sundfötum og við náðum að slaka vel á eftir vinnuna á spítalanum. Sjórinn alveg tær, yndislegt að synda þar og við sólbökuðumst mjög vel.

Spítalinn

Í Tsunamiinu þá þurrkaðist eiginlega allur spítalinn út svo að nú er búið að byggja nýjan með hjálp frá löndum í Evrópu svo spítalinn er frekar flottur (á indónesískan mælikvarða), átta skurðstofur og margar deildir. Læknarnir voru flestir mjög yndislegir, töluðu einhverja ensku og lögðu sig virkilega fram við að þýða og láta okkur læra sem mest. Eiginlega allir læknanemarnir töluðu ágæta ensku og hjálpuðu okkur mjög mikið. Við vorum reyndar stundum sett í rosalega óþæginlega stöðu þegar sérfræðingurinn neyddi læknanema/deildarlækni til að halda fyrirlestur á ensku bara því við vorum þarna.

Við völdum öll skurð og fengum bara að raða okkur og skipta um deildir eins og við vildum. Það eru margar aðgerðir sem eru gerðar úti sem eru ekki gerðar hér heima svo það var mjög kúl að fá að fylgjast með þeim. Margar aðgerðir gerðar vegna fæðingargalla sem koma einungis til vegna fátæktar móðurinnar og vannæringu. Ég valdi barnaskurð, hjarta-, æða og brjóstholsskurð og svo heila- og taugaskurð. Ég fékk að gera mismikið á deildunum en stundum að sauma og aðstoða við aðgerðir sem var  mjög gaman. Fyrstu saumarnir sem ég gerði í lífinu voru til dæmis í höfuðleður á manni eftir aðgerð á heila. 

IMG_2047

Húsnæðið

Ég verð að viðurkenna að húsnæðið var frekar hræðilegt. Ég gisti með annarri stelpu, frá Frakklandi, í pínulitlu herbergi, þar sem við gistum saman á frekar þunnri dýnu á gólfinu. Það var ekkert klósett heldur bara hola í jörðinni og engin sturta heldur. Það var vatnstankur með köldu vatni og svo lítil fata sem við notuðum til að hella yfir okkur vatni fyrir sturtu, til að sturta niður úr holunni og til að þvo á okkur hendurnar. Á nóttunni komu svo reglulega kakkalakkar og ormar sem voru svo samt oftast bara dánir um morguninn á einhvern undarlegan hátt. Strákarnir háðu síðan ófá maurastríðin í sínu herbergi. Þeir gistu í öðru húsi rétt hjá okkar og voru þar þrír saman í herbergi með svipaðar aðstæður nema minna herbergi og þar var klósett en ekki hola (sem samt var ekki hægt að sturta niður nema með fötu). Flest allir í Banda Aceh búa við þessar aðstæður svo engin ástæða til að kvarta og svo venst þetta fljótt. Borgin varð síðan rafmagnslaus 3-4 sinnum í viku svo þá var engin loftkæling né ljós í nokkra tíma en við létum það ekki á okkur fá. 

Social programmið

Í raun var ekki mikið social prógram skipulagt af nefndinni í borginni fyrir utan welcome dinner og goodbye dinner en aftur á móti þá gerði fólkið af spítalanum lífið í borginni ótrúlega skemmtilegt. Við eignuðumst svo marga vini á spítalanum, bæði lækna, hjúkrunarfræðinga og læknanema. Nokkrir læknar buðu okkur útað borða, á ströndina, á kaffihús og heim til sín í mat. Einn læknirinn sem stóð sérstaklega upp úr bauð okkur svo líka í ferð með Mercedes Benz klúbbs Aceh (hann er formaður) í næstu borg til að heimsækja þar munaðarleysingjaheimili og eftir það í ótrúlega flottan kvöldmat á ströndinni. Svo fór ég einu sinni í veiðiferð þegar aðgerðir kláruðust snemma með þremur hjúkrunarfræðingum þar sem við veiddum fisk og skutum einhvern fugl með haglabyssu út um glugga á bílnum þeirra.  Læknanemarnir voru líka stór og góður hópur sem buðu okkur með út að borða og á kaffihús. Í lok skiptanna var síðan risastór hátíð Múslima þar sem Ramadan endar og þá buðu stelpurnar í læknanemahópnum okkur heim til nokkurra þeirra þar sem við fórum í hverja veisluna á fætur annarri.

DSC_0134

Trúin

Þegar við vorum í Banda Aceh var Ramadan og þar sem þetta er mjög mikil múslimaborg var frekar erfitt fyrir okkur að finna eitthvað að borða og það mátti ekki borða fyrr enn eftir kl. 19. Litlar localbúðir voru yfirleitt opnar allan daginn en þar sem við vorum ekki með neinn kæli og ekki mikið úrval í búðum borðuðum við ekki mjög fjölbreytt fæði í þennan mánuð. Minn helsti morgun- og hádegismatur voru einn eða tveir Floridana appelsínusafar og kex og strákarnir borðuðu brauð með nutella á hverjum degi. Á spítalanum tókum við með nesti og borðuðum yfirleitt inn í skurðbúningsklefanum, á klósettinu eða inni í hvíldarherbergi læknanemanna sem var mismunandi fyrir kynin. Allir í borginni fasta nema þeir fáu sem eru af annarri trú, konur á blæðingum, óléttar konur og sjúklingar svo við borðuðum ekki mat fyrir framan aðra nema kannski vini okkar (sem leyfðu það).

Allar konur í Aceh eiga að vera með hijab og voru bæði vinkonur okkar, læknanemarnir, og læknarnir mikið að hvetja mig og frönsku vinkonu mína, til að prófa það. Það var alveg gaman að prófa og þeim fannst það mjög skemmtilegt og ég miklu fallegri fyrir vikið.

Mér fannst stundum erfitt að vera stelpa með þremur strákum þarna og upplifa mismunandi samskipti við þá og mig. Það bar ekki mikið á því en það var stundum pirrandi hvað það voru fleiri reglur um konur, t.d. í sambandi við klæðaburð. Svo lentum við einu sinni í því að ég mátti ekki sitja á sama stað í strætó og þeir heldur var ég færð yfir á “konusvæðið” í strætónum en annars er fátt neikvætt hægt að segja um reynslu okkar af trúnni.

Mér fannst alveg ótrúlega magnað að fá að kynnast þessari menningu og þessari trú svona vel. Þetta var eitthvað sem fáir fá líklega að upplifa og sérstaklega að búa í þessari ströngu borg. Það var líka skemmtilegt og fróðlegt að geta spurt vini okkar út í alls kyns smáatriði í Islam og ástæður fyrir alls kyns reglum og hefðum. Það var líka eitthvað við það að vakna við bænakall kl. 4 á nóttunni og hlusta í klukkustund á mann biðja í öllum hátalarakerfum borgarinnar.

Reynslan

Þetta var eitt það skemmtilegasta og jafnframt mest krefjandi lífreynsla sem ég hef upplifað. Við eignuðumst svo marga vini, ég lærði svo mikið og ég skemmti mér svo vel. Ég myndi hiklaust mæla með því að fara í skiptinám og Indónesía er frábært land til að velja. Banda Aceh er mögnuð borg  og fólkið þar mun alltaf eiga stað í hjarta mínu og okkar strákanna.

IMG_2561