Indónesía 2016: Hilda Hrönn

Jakarta

Borgin

Jakarta er höfuðborg Indónesíu og er HUGE! Við erum að tala um að minnsta kosti 10 milljónir íbúa með tilheyrandi umferð, mengun og hita. Bílar og hús eru hins vegar vel loftkæld svo alls ekki hafa neinar áhyggjur af því. Ég fór þangað í skiptinám eftir útskriftarferðina á 3. ári og er ótrúlega ánægð með reynsluna sem ég fékk. Jakarta er að mínu mati fullkomin borg fyrir skiptinám; spítalinn er toppnæs, læknarnir enskumælandi og fullt af spennandi og sjaldgæfum tilfellum að sjá. Ég myndi hins vegar ekki mæla með þessari borg til að fara í frí því það er einfaldlega of heitt til að vera á röltinu og ekki mikið annað að gera en að fara á söfn og í verslunarmiðstöðvar (sem án gríns urðu að mínu öðru heimili. Þar var Grand Indonesia Shopping Town heldur betur í uppáhaldi – og ekki nema 640.000 fermetrar!) 

Spítalinn

Ég var á kvenna- og fæðingardeild á einum flottasta spítala Indónesíu og hefði ekki getað verið sáttari! Ég get í alvöru ekki lýst því hvað læknarnir voru yndislegir. Alltaf brosandi og hlæjandi og gáfu sér alltaf tíma til að útskýra allt fyrir okkur. Ég lærði ótrúlega margt og punktaði helstu tilfellin hjá mér í bók (sem ég mæli klárlega með!) sem verður gaman að fletta í gegnum þegar kvennakúrsinn byrjar á 5. ári og bera löndin saman. Á þessum spítala voru tilfellin yfirleitt mjög alvarleg; alvarlegar meðgöngueitranir, bráðakeisarar og andvana fæðingar (m.a. vegna fólinsýruskorts).

Það var ótrúlegt tækifæri fyrir mig að sjá svona alvarleg tilfelli og fylgjast með hvernig læknarnir brugðust við, alltaf af mikilli fagmennsku og með hlýju hjarta. Það sem ég dáðist helst að var að hver vakt byrjaði á því að yfirlæknirinn stappaði stálinu í mannskapinn og fór með bæn að múslima sið. Ég mun aldrei gleyma lokaorðunum hans: “Do everything with heart and always treat the patient as best as possible”. Ég get sagt ykkur það að allt sem heitir fordómar fyrir múslimum flaug gjörsamlega út um gluggann!

hilda2 hilda1

Húsnæðið

Nefndin útvegaði okkur húsnæði sem var því miður alveg hræðilegt. Öll húsgögnin voru rykfallin og skítug þegar við mættum á svæðið og rottuskítur inni í stofu og á baðinu. Það var nefnilega hola í stofunni þar sem rottur og kakkalakkar gátu komið inn á nóttunni. Ég neyddist til að sofa þarna eina nótt – og var bitin af einhverju ógeði – og allir voru sammála um að við þyrftum að fara þaðan ÚT! Eftir strembna leit að nýju húsnæði var niðurstaðan hótelgisting rétt hjá spítalanum svo allt fór þetta vel á endanum. Það var ákveðin lífsreynsla fólgin í því að takast á við þetta húsnæðisvandamál með hinum skiptinemunum og urðum við miklu nánari fyrir vikið – á endanum gátum við helgið af þessu og kölluðum okkur The Rat Family það sem eftir var (sjá mynd að neðan sem var tekin í flippi í einu mollinu). Að þessu sögðu ráðlegg ég ykkur að hafa ekki neinar væntingar hvað varðar húsnæði á þessum slóðum, hvort sem er í Jakarta eða Asíu yfir höfuð.

Social programmið

Það var virkilega vel haldið utan um okkur skiptinemana og alltaf eitthvað skemmtilegt planað á kvöldin – út að borða, bíó, keila, skemmtigarðar, matarmarkaðir ofl. Tengiliðirnir okkar voru algjörar snúllur, yfirleitt 17-18 ára nemar á fyrsta ári, sem vildu allt fyrir okkur gera (I know – þau byrja fáránlega ung í lækninum þarna úti!) Núna er ég líka með svona 15 þeirra á snapchat og er alltaf að sjá einhver mjööög random snöpp haha! En þau voru yndisleg og héldu fyrir okkur Farwell Party þar sem mamma eins tengiliðarins eldaði indónesískan mat ofan í allt liðið! Ég gleymdi að maður átti að koma með eitthvað á borðið frá sínu landi.. svo ég reddaði mér með því að kaupa ís… Frá Ís-landi… þið skiljið. Mér fannst ég sjúklega fyndin en rússnenska vinkona mín svoleiðis ranghvolfdi augunum LOL!

hilda-3

hilda3

En mér leið virkilega vel í Jakarta og mæli ég 100% með því að fara þangað í skiptinám. Mitt ráð er að fara með opnum huga og reyna að finna eitthvað jákvætt við allar aðstæður sem þið lendið í. Ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi Jakarta eða skiptinám yfir höfuð ekki hika við að hafa samband við mig.

Hilda Hrönn Guðmundsdóttir, læknanemi á 4. ári