Þegar okkur vinkonunum datt í hug að henda okkur í skiptinám eftir þriðja ár vorum við ekki lengi að velja land. Verandi áhugakonur um menningu, mat og drykk gátum við ekki annað gert en farið til Ítalíu. Í lok júní 2015 lögðum við land undir fót og héldum til borgarinnar Verona.
Ítalíudvölin stóð undir öllum þeim væntingum sem við höfðum gert til hennar og rúmlega það. Verona er einstaklega notaleg og rómantísk borg með ríku mannlífi. Það leið varla sá dagur sem við röltum ekki um þröngar götur hennar og fengum okkur gelato eða settumst niður yfir rauðvínsglasi, ólívum, ostum og öðru tilheyrandi snarli. Skortur á næturlífi truflaði okkur ekkert enda nýkomnar frá Asíu úr útskriftarferð.
Við nýttum helgarnar í ferðalög með nýju skiptinemavinum okkar og tókst að ferðast til Bologna, Flórens, Feneyja og Mílanó. Lestasamgöngur eru mjög þægilegar og lítið mál að ferðast til nærliggjandi staða. Þrátt fyrir að Verona standi hjörtum okkar nærri eftir dvölina þar verður að minnast á að Flórens heillaði okkur alveg sérstaklega. Hluti af sjarma Verona felst í smægð hennar en Flórens býður uppá fjölbreyttari afþreyingar og öflugt næturlíf. Byði læknadeild uppá Erasmus skipti yfir veturinn væri þessi samantekt líklega rituð í Flórens en ekki Reykjavík.
Aðstaðan sem Ítalarnir bjóða skiptinemunum uppá er til fyrirmyndar. Allir nemarnir voru hýstir á stóru íbúðahóteli í 15 mínútna göngufjarlægð frá miðbænum. Við vorum í íbúð með fjórum öðrum stelpum og saman höfðum við eldhús og tvö baðherbergi til afnota og einu sinni í viku fengum við húshjálp sem þreif hátt og lágt –ekki amalegt það!
Það var lán í óláni að við fengum ekki pláss á almennri skurðdeild eins og við höfðum óskað eftir heldur var okkur komið fyrir á bæklunarskurðdeild á spítalanum Borgo Trento. Í Verona eru tvö sjúkrahús og Borgo Trento var mun nær íbúðinni okkar en hinn spítalinn, við gátum hjólað leiða okkar meðan flestra hinna skiptinemanna beið löng strætóferð á morgnana. Eftir að hafa borið saman bækur okkar við hina nemana var einróma samþykki að bæklunarskurðdeildin tæki best á móti sínum nemum. Okkur var boðið í kvöldmatarboð og deildarpartý heima hjá einum sérfræðilæknanna og aldrei fengum við að borga fyrir kaffið okkar á daginn. Góð enskukunnátta læknanna kom okkur skemmtilega á óvart enda viðbúnar því að bara yrði töluð ítalska við okkur. Svo var þó ekki og allir tilbúnir að útskýra fyrir okkur það sem þurfti á ensku. Það verður að minnast á að á deildinni voru nær eingöngu karllæknar (og karlhjúkrunarfræðingar) sem tóku skandinavisku estrógeninu fagnandi sem gæti mögulega útskýrt gestrisnina og höfðingjaskapinn sem við mættum.
Að lokum þarf að minnast á hversu gott skipulagið var meðal ítölsku nemanna. Allir báru ábyrgð á að sjá um einhvers konar afþreyingu svo það voru margir skipulagðir atburðir í hverri viku, sem dæmi má nefna óperur, rafting, strandferðir að Garda vatni, dagsferð til Mílanó og margt fleira.
Þessi dvöl var frábær í alla staði og við mælum hiklaust með skiptinámi til Verona!