Ítalía 2016: Arna Rut

Eftir þrjú ár í læknisfræði fannst mér kominn tími á að prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt og skellti mér í skiptinám til Veróna á Ítalíu. Ég sé ekki eftir því enda er þetta með því skemmtilegra sem ég hef gert og Veróna frábær borg í alla staði.

Mánuðinn úti var ég á bæklunarskurðdeild Ospedale Borgo Trento ásamt tveimur öðrum skiptinemum frá Indónesíu og Grikklandi. Dvölin á deildinni var mjög lærdómsrík en dæmigerður dagur byrjaði á morgunfundi kl. 7:45 þar sem ræddar voru aðgerðir gærdagsins og fleira sem við erlendu skiptinemarnir skildum lítið í. Svo fórum við annaðhvort á bæklunarbráðamóttökuna, skurðstofuna eða á göngudeild. Á bæklunarbráðamóttöku voru flókin brot og önnur bæklunartengd vandamál af almennu bráðamóttökunni send. Göngudeild sá um eftirfylgd og endurkomur sjúklinga og á  skurðstofunni fengum við svo að fylgjast með mörgum áhugaverðum aðgerðum af öllum stærðargráðum. Viðveran á spítalanum var um fimm klst. á dag og máttum við að mestu leyti ráða því sjálf hvar við eyddum deginum sem var mikill kostur því þannig varð veran á spítalanum mjög fjölbreytt. Ítalir tala almennt litla og oft enga ensku en læknarnir voru þó með þeim skárri. Langflestir tóku mjög vel á móti okkur og reyndu að útskýra það sem fram fór eftir bestu getu og splæstu á mann kaffi þess á milli. Eins og ítölsku læknanemarnir höfðu þó varað okkur við gáfust ekki mörg tækifæri til að taka beinan þátt í starfinu en það var bæði vegna tungumálaörðugleika og vegna þess að ekki er mikil hefð fyrir því á spítalanum að læknanemum sé falin mikil ábyrgð.

Allt skipulag og utanumhald alþjóðanefndarinnar í Veróna var til fyrirmyndar. Allir skiptinemarnir, sem voru 22 talsins, bjuggu 4-6 saman í íbúð á íbúðahóteli ekki svo langt frá miðbæ Veróna. Íbúðirnar voru mjög fínar og rúmgóðar en ég deildi íbúð með fimm stelpum alls staðar að úr heiminum. Þetta gaf öllum tækifæri á að kynnast mjög vel en skiptinemahópurinn var eins og ein stór fjölskylda og alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi. Ítölsku læknanemarnir voru líka mjög duglegir við að skipuleggja alls konar viðburði allt frá partýjum og rafting til óperuferða og hádegisverðar í fjöllunum hjá ömmu og afa eins læknanemans. Það var dagskrá hverja helgi og marga virka daga líka. Þar fyrir utan voru þau mjög dugleg að taka okkur með í partý, út að borða, versla og fleira. Við náðum einnig að heimsækja marga staði utan Veróna til dæmis Feneyjar, Gardavatn, Genova og Cinque Terre sem voru hver öðrum fallegri.

Á heildina litið voru þessi skipti alveg frábær reynsla og eitthvað sem ég myndi mæla með að allir prófuðu. Þetta er frábært tækifæri til að kynnast heilbrigðiskerfum annarra landa og sjá hvernig hlutirnir ganga þar fyrir sig. Þetta er þó ekki síst frábært tækifæri til að kynnast læknanemum alls staðar að úr heiminum og á ég núna fullt af nýjum vinum í fjórum heimsálfum sem ég mun án efa nýta mér í starfi og á ferðalögum í framtíðinni.

mynd5

img_4492

mynd1

img_4052

mynd4