Ítalía 2017: Guðrún Ingibjörg

Ævintýri og ítalskar skurðstofur

Öll ævintýri eiga sér upphaf og endi og sumarævintýrið mitt þetta árið hófst í raun ári fyrr. Ég heimsótti Ítalíu í fyrsta sinn sumarið 2016. Eftir einungis tveggja vikna dvöl í Mílanó og sveitunum þar í kring á Norður-Ítalíu var ekki aftur snúið – ég varð gjörsamlega heilluð af landi og þjóð; menningu, sögu, víni og mat. Þegar heim var komið leið mér eins og hluti af mér væri ekki heima, heldur þar – í landi sem hafði verið mér ókunnugt fjórtán dögum áður en var nú skyndilega orðið eins og inngróinn hluti af mér.

Fljótlega varð mér ljóst að ég yrði að komast aftur út.

image1 (16)

Skiptanámssamtökin SCOPE

Mig langaði þó ekki að koma til Ítalíu sem ferðamaður, heldur dreymdi mig um að fá að búa þar í nokkurn tíma. Næstu vikur lagði ég því höfuðið í bleyti og reyndi að láta mér detta í hug hvernig ég kæmist sem fyrst aftur til Ítalíu.

Ég hafði ekki leitað lengi þegar lausnin fannst: skiptinám. Námið við Læknadeild HÍ er mjög fastmótað og því erfitt að fara í skiptinám í heilt ár án þess að hreinlega seinka sér um þann tíma. Hins vegar er komin nokkur hefð fyrir því meðal íslenskra læknanema að fara í skiptinám einn mánuð að sumarlagi, í gegnum starfsnámssamtökin SCOPE en þau heyra undir alþjóðleg samtök læknanema, IFMSA (sem stendur fyrir International Federation of Medical Students´ Associations). SCOPE eru umfangsmestu starfsnámssamtök heims en síðan samtökin voru stofnuð árið 1951 hafa meira en 250.000 læknanemar frá 98 löndum horfið á vit nýrrar þekkingar og ævintýra með milligöngu SCOPE. Þar á meðal eru íslenskir læknanemar en á hverju sumri fórna nokkrir slíkir sumarvinnunni, í skiptum fyrir reynslu af námi og starfi á erlendum sjúkrahúsum.

Það varð því úr að ég sótti um skipti til Ítalíu í gegnum SCOPE og endaði þannig í hafnarborginni Genova á Ítalíu í júní 2017, með hvítan slopp og hlustunarpípu í farteskinu.

„Hin fimm fræknu“ í Genova

Þegar til Genova var komið varð ég fljótlega vör við það vandamál sem átti eftir að fylgja mér það sem eftir lifði ferðalagsins: Ítalir tala ítölsku. Litla spænsku, litla frönsku, enn minni ensku og enga þýsku. Ég talaði hins vegar litla sem enga ítölsku, þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir á Duolingo tungumálaappinu. Oftast var hægt að leysa vandann með einhvers konar táknmáli eða með þýðingarforritum í símanum en einstaka sinnum kom fyrir að allt var stopp.

Tungumálakunnáttan kom þó sem betur fer lítið niður á náminu á sjúkrahúsinu en þar sem ég var á skurðdeild, voru flestir sjúklinganna sofandi þegar ég kom að þeim og því ekki til viðræðu, hvorki á ítölsku né öðrum tungumálum. Skurðlæknarnir töluðu flestir hrafl í ensku en það kom mér á óvart að oft voru eldri læknarnir talsvert leiknari í enskunni en þeir yngri og skýrðist það af því að á háskólaárunum höfðu þeir þurft að lesa bækur á ensku, sem nú var hins vegar búið að þýða á ítölsku.

En þótt námið á spítalanum hafi verið fróðlegt, þá voru vináttuböndin sem urðu til þennan mánuð ómetanleg. Við vorum fimm skiptinemar frá fimm löndum sem dvöldum í Genova í júní. Löndin voru öll gjörólík – Líbanon, El Salvador, Súdan, Brasilía og Ísland – en það skemmdi ekki fyrir og eftir nokkra daga voru „hin fimm fræknu“ orðin svo til óaðskiljanleg. Við bjuggum saman á stúdentagarði, vorum samferða á spítalann á morgnana, borðuðum saman í hádeginu og á kvöldin, ferðuðumst saman um helgar og fórum saman í óperuna og á útihátíðir.

Eitt eða tvö þeirra höfðu varla heyrt á Ísland minnst áður og enginn vissi almennilega hvar þetta land væri eiginlega staðsett á korti. Þeim fannst stórmerkilegt að hér væri bjart allan sólarhringinn á sumrin og að við ættum okkar eigin gjaldmiðil en merkilegast fannst þeim þó að þessar 350.000 manneskjur sem kjósa að búa einar og einangraðar úti í miðju Atlantshafi töluðu sitt eigið tungumál!

image5 (1)

Aðhlátursefni skurðstofunnar

Sjúkrahúsið sem ég lærði á heitir San Martino og er aðalsjúkrahúsið í Genova. Þótt mannslíkaminn sé svipaður á flestum stöðum og læknisfræðin því einnig, voru þó viðbrigði að koma inn á nýjan spítala, þar sem fáir töluðu ensku og sjúklingafjöldi á deildum var ekki talinn í tugum heldur hundruðum. Sjúkrahúsið var ekki í einu eða tveimur húsum, heldur var spítalinn í raun eins og stórt þorp inni í miðri Genovaborg – á fjórða tug bygginga á stóru svæði og á milli þeirra gekk sérstakur spítalastrætó, því vegalengdirnar milli húsa voru lengri en svo að hægt væri að ganga þær á nokkrum mínútum.

Starfsfólkið á lýtaskurðdeildinni var allt hið indælasta og tók vel á móti mér, sem ég var afskaplega þakklát fyrir. Skurðhjúkrunarfræðingarnir á lýtadeildinni höfðu t.d. miklar áhyggjur af því hvað ég væri föl og hvít og urðu því spennt þegar ég sagði þeim einn daginn að ég ætlaði loksins að láta verða af því að kíkja á ströndina eftir vinnu.
Eftir skurðaðgerðir morgunsins kom einn hjúkrunarfræðingurinn til mín og rétti mér túpu af sólarvörn. „Gerðu það fyrir mig að setja þetta á þig áður en þú ferð á ströndina – annars geturðu bókað það að þú munt líta út eins og „pomodoro“ (í. tómatur) þegar ég sé þig í fyrramálið!“
Ég gerði allt eins og mér var sagt og bar samviskusamlega á mig sólarkrem þrisvar sinnum yfir daginn en allt kom fyrir ekki – ég varð rauð eins og tómatur. Því er auðvitað skemmst frá að segja að íslenski læknaneminn varð aðalaðhlátursefni skurðstofunnar morguninn eftir.

image2 (3) (1)

Ítalskur hjartaskurðlæknir, íslenskur læknanemi

Ég nýtti hvert tækifæri til að ferðast og upplifa, innan borgarinnar þegar ég kom heim af skurðstofunni á virkum dögum en ferðaðist gjarnan lengra um helgar. Einn sunnudagsmorgun lagði ég af stað í slíka dagsferð og hugðist þá hitta góða ítalska vinkonu mína sem býr í borginni Bologna.
Ég var ansi syfjuð þegar ég settist inn í lestina, enda snemma morguns á sunnudegi og ég hafði komið seint heim úr öðru ferðalagi á laugardagskvöldinu. Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar að geta dottað í tvo klukkutíma á leiðinni.
Stuttu eftir að ég kom mér fyrir settist roskinn karlmaður í sætið á móti mér. Hann kinkaði úfnum kolli, bauð góðan dag á ítölsku og ég svaraði honum í sömu mynt en þegar hann hugðist víkka út samræðurnar, komst hann snarlega að því að ítölskukunnátta mín náði ekki lengra. Ekki talaði hann ensku og sátum við því þögul um stund.
Ég lygndi aftur augum, hann tottaði tóbakslausa pípu (það er bannað að reykja í lestinni) og leysti krossgátu í dagblaðinu La Repubblica. Þegar ég opnaði augun öðru hvoru, leit hann upp úr dagblaðinu og brosti.
Loks gat hann ekki haldið aftur af sér: „Þú talar bara ensku? Enga italiano (í. ítölsku)?“ Ég hristi höfuðið: „Ensku, dönsku, íslensku. Enga italiano.“ Mér datt ekki einu sinni í hug að nefna þýsku, því ég hafði þegar reynt hana við annan hvern Ítala síðustu tvær vikur og ekki gengið vel. Hann var augsjáanlega vonsvikinn en ekki tilbúinn til að gefast upp.
„Spænsku?“
Ég hristi höfuðið.
„Frönsku?“
„Því miður,“ svaraði ég og nú var ekki laust við að ég væri orðin leið yfir þessari döpru stöðu.
„Enga þýsku?“ spurði hann loks vondaufur, þetta var greinilega síðasta tilraun.
Það lá við að ég hrópaði upp yfir mig. „Jú! Ég tala þýsku! Þér líka?“
Og þá glaðnaði allverulega yfir karli.

Ég drekk, ég reyki og ég elska – á hverjum degi!
Nú var ekki aftur snúið og ljóst að morgunblundurinn minn var úr sögunni en ekki syrgði ég hann lengi, því ferðafélaginn reyndist hinn merkilegasti.
Hann hét Sergio, var 83 ára gamall og á leiðinni til Mílanó að hitta kærustuna sína sagði hann mér, greinilega glaður í bragði. Tveggja barna faðir, drengur og stúlka, nú orðin 50 og 60 ára.
En það datt ekki af mér andlitið fyrr en hann sagði mér frá ævistarfinu: Dott. Prof. Sergio Adamoli starfaði sem skurðlæknir og prófessor í brjóstholsskurðlækningum við háskólann í Genova. Hann vann á skurðdeild San Martino sjúkrahússins í Genova – sjúkrahúsinu þar sem ég var nú nemi.
Við áttum hvorugt til orð.
Með blöndu af þýsku, ensku og hrafli úr ítölsku, samkjöftuðum við ekki það sem eftir lifði leiðarinnar og skellihlógum meira og minna allan tímann. Ég held reyndar að hvorugt okkar hafi skilið almennilega hvert aðhlátursefnið var því tungumálakunnáttan hjá okkur var götótt en það skipti ekki öllu máli.
Samræðurnar fóru um víðan völl: Ítalía á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar hann var barn, læknisstörf hans í Afríku og hvernig best er að lifa sem lengst og vera hress og ungur í anda, eins og hann sjálfur. Hann lá ekki lengi á leyndarmálinu:
„Ég drekk, ég reyki og ég elska – á hverjum degi!“
Ég benti honum á að það væri nú varla við hæfi að brjóstholsskurðlæknir reykti – og þá skellti hann upp úr.
Við kvöddumst treg á lestarpallinum í Mílanó en vonuðumst til að hittast aftur í Genova áður en ég færi heim. Því eins og franskur ferðalangur sem sat í næsta lestarbás sagði við mig, eftir að hafa hlustað á tveggja stunda löng kynni okkar Sergio: „Þetta eru bara örlögin, maður.“

image8

Bjó í El Salvador, Moskvu og Afríku

Tveimur vikum eftir fyrstu kynni okkar Sergio um borð í lest á leið til Mílanó, mæltum við okkur mót á kaffihúsi í Genova.

Hann bað mig að velja stað og ég valdi eina kaffihúsið sem ég þekkti – Café Mangini, ægifínt bakarí við fallegt torg í borginni. Ég hafði komið þangað nokkrum sinnum og reyndar alltaf verið langyngst gestanna en ekki látið það á mig fá. Ég taldi þá líka víst að Sergio kannaðist vel við staðinn.
Það gerði hann hins vegar ekki: „Þetta er í fyrsta sinn sem ég fæ mér kaffi hérna,“ sagði hann sposkur þegar við settumst. Svo hallaði hann sér nær mér og hvíslaði, svo konurnar á næsta borði heyrðu ekki til: „Hingað koma yfirleitt bara gamlar konur. Ég kalla þetta Café Menopause!“
Svo skellihló hann og kveikti sér í pípu.

Yfir kaffinu ræddum við vinnu Sergio en fyrir utan hjálparstarf hans í Afríku, starfaði hann sem læknir í El Salvador í átta ár, þegar borgarastyrjöldin geisaði þar á 9. áratugnum. „El Salvador varð mitt annað heimili, það er mjög sérstök tenging. Ég dvaldist til dæmis líka nokkur ár í Moskvu þegar ég var enn að læra – en Rússland varð mér aldrei jafnkært og El Salvador.“

Aðspurður hvort það hefði ekki verið erfitt að vinna svona mikið erlendis, tveggja barna faðir, kinkaði hann kolli en yppti svo öxlum og leit undan.
„Líf læknis er alltaf erfitt. Það verður ekki hjá því komist, hvort sem maður er heima eða að heiman. Maður hugsar alltaf: Hvað hefði ég getað gert betur í dag? Þetta verður læknir að hugsa, á hverjum degi.“

Lífshættulegur ítalskur bíltúr

Þegar við höfðum lokið við kaffið, sótti Sergio það fast að fá að sýna mér uppáhalds staðina sína í borginni. Við gengum því yfir götuna, þar sem var vel falinn almenningsgarður – Villetta Di Negro.

Eftir að hafa rölt aðeins um garðinn snerum við til baka og ég ætlaði að gera mig líklega til að kveðja en þá kom í ljós að Sergio var akandi og vildi gjarnan fá að bjóða mér í bíltúr. Ég viðurkenni að mér leist í fyrstu mátulega vel á þá hugmynd að fara upp í bíl hjá Ítala á níræðisaldri, sem ég þekkti í þokkabót næstum ekki neitt. En ég lét tilleiðast.

Sergio reyndist vera jafnítalskur undir stýri og hann er í útliti – hann ók á ofsahraða gegnum þröngar götur, stoppaði í miðjum hringtorgum ef honum sýndist og flautaði á gangandi vegfarendur ef honum þótti þeir ekki nógu fljótir að forða sér undan honum.

Ég hélt á tímabili að bílferðin sú yrði mín síðasta, af aksturslaginu að dæma, en allt er gott sem endar vel og eftir góðan útsýnistúr um borgina kvöddumst við Sergio í annað sinn. Við tókum hátíðleg loforð hvort af öðru um bréfaskriftir og prófessorinn spurði að lokum hvort flugmiðar til Íslands væru mjög dýrir og hvort flogið væri beint til Reykjavíkur frá Mílanó.

Það var sannkallað ævintýri að fá að kynnast þessum víðförla manni – og hver veit nema við hittumst í þriðja sinn heima á Íslandi.

Processed with VSCOcam with c1 preset

Ferðaþráin býr um sig

Allt tekur enda um síðir og í júnílok var komið að kveðjustund. „Hin fimm fræknu“ nýttu síðasta kvöldið okkar saman fyrir „lautarferð“ á grýttri strönd Genovaborgar. Við hlógum, borðuðum heimalagað pasta beint upp úr pottinum og drukkum til skiptis ítalskt rauðvín og íslenskt brennivín fram á svartanótt en enginn nefndi hið óumflýjanlega – morguninn eftir yrðum við ekki lengur hér.

Ég er reynslunni ríkari eftir mánuðinn sem ég bjó í Genova. Nú á ég til dæmis vinkonu og útistandandi heimboð í Súdan. Ég þekki mun á hinum ýmsu brjóstaaðgerðum (þótt líklega séu enn nokkur ár í að ég geti framkvæmt þær sjálf), ég hef séð hvernig hægt er að færa fullþykktarhúð af enni niður á nef án þess þó að skera hana alveg af og ég veit hvernig skurðarlínur eiga að liggja þegar fæðingarblettir og krabbamein í húð eru skorin burt.

Ekki tókst mér hins vegar að losa mig við Ítalíuþrána – nú er ég komin heim og aftur inn á Landspítala en landið fagra í suðri minnir enn á sig, með stöðugum seyðingsverk í brjóstinu og dagdraumum milli sjúklinga á stofugangi. Ég finn út úr því fljótlega hvernig ég kem mér þangað aftur, kannski tvo mánuði í þetta skiptið. Sjáumst að ári, Ítalía.

Processed with VSCOcam with c1 preset