Malta 2015: Signý Malín

Signý Malín Pálsdóttir1Það eina sem ég vissi um Möltu áður en ég fór út var að þar var heitt og að Maltverjar eru trúaðir. Þetta reyndist hvoru tveggja mjög rétt, maður er sveittur allan daginn og myndir af Jesú og Maríu mey eru út um allt, meira að segja inni á skurðstofunum. Þessi skipti til Möltu reyndust samt einn af skemmtilegustu mánuðum sem ég hef upplifað.

Það er mikill kostur að það tala allir góða ensku á Möltu og ég lenti aldrei í því að geta ekki gert mig skiljanlega. Á spítalanum tala Maltverjarnir oftast maltnesku sín á milli en sérfræðingarnir eru duglegir að þýða og súmmera fyrir mann og sjúklingarnir oftast mjög tilbúnir til að tala við mann á ensku. Allar merkingar þar eru líka á ensku sem hjálpar mikið á þessum risastóra spítala sem nokkuð auðvelt er að villast á. Spítalavistin er mjög afslöppuð.

Signý Malín Pálsdóttir4Maltverjar eru með stóran, nýlegan spítala sem heitir Mater Dei. Manni er úthlutað sérfræðingi sem sér um mann á meðan að dvölinni stendur. Við áttum að mæta átta ef við gætum en enginn kvartaði ef maður kom ekki fyrr en 9. Á morgnana var fundur á ensku um hin ýmsu málefni, t.d. nýlegar greinar úr tímaritum og áhugaverð EKG. Eftir það fylgdum við sérfræðingum í því sem þeir voru að gera, á göngudeild, í pre-op sjúklinga eða á skurðstofuna. Dagurinn var síðan búinn þegar að sérfræðingarnir voru ekki með fleiri sjúklinga sem var yfirleitt um 1 leitið. Sérfræðingurinn minn var mjög kennslufús og hjálplegur og auk þess að kenna okkur sjálfur fann hann sérfræðinga í öðrum tengdum greinum til að kenna okkur um þær, t.d. nuclear imaging. Maltverjar taka á móti mjög mörgum nemum auk skiptinemanna svo að oft voru mjög margir nemar með hverjum lækni. Þetta gerði það að verkum að svolítið kraðak gat verið inni á stofunum og oft sá maður lítið í aðgerðum.

Veðrið er mjög ólíkt því sem maður er vanur. Það er rosalega heitt, á meðan að ég var kom svo hitabylgja sem gerði illt verra. Það rigndi ekki dropa út lofti þessar 5 vikur sem ég dvaldi þarna og það bærðist varla hár á höfði allan tímann. Þessvegna er rosalega gott að það eru strandir út um allt þar sem hægt er að skella sér í sjóinn og kæla sig niður. Á kvöldin og nóttina er síðan mjög þægilegt hitastig úti og þarf maður aldrei á jakka að halda.

Signý Malín Pálsdóttir5Maltverjarnir eru með æðislegt félagsprógramm. Í hverri viku eru nokkrir viðburðir, allt frá skoðunarferðum til næstu eyja og köfunar til vínhátíða og klúbbadjamms. Þar sem að skiptinemarnir eru nokkuð margir (30-40) eru líka haldin partý í íbúðunum sem við bjuggum saman í og hópferðir á djammið. Það er alltaf eitthvað í gangi og sjaldan sem manni leiðist. Síðan eru bæjarhátíðir í einverjum bæ í hverri viku með tilheyrandi flugeldum, götuskreytingum og styttum.

Ég myndi hiklaust mæla með Möltu fyrir þá sem vilja skemmtilegt og afslappað skiptinám.

Signý Malín Pálsdóttir3 Signý Malín Pálsdóttir2