Noregur 2015: Steinunn Birna

Steinunn_1
Mig langaði að fara sem skiptinemi til þess að skipta um umhverfi, öðlast reynslu, kynnast nýju fólki og læra spennandi hluti. Ég ákvað að fara til Noregs vegna þess að mig langaði að ná betur tökum á norskunni og kynnast Noregi betur. Ég ákvað að fara til Trondheim vegna þess að ég hafði aldrei komið þangað áður, that simple.

Steinunn_4
Ég sótti um að fara á bráðamóttökuna því ég hafði smitast af bráða-bakteríunni í gegnum starf mitt í Bjargráði. Ég sé ekki eftir því. Sem 2. árs nemi hafði ég ekki miklar væntingar um að fá að gera mikið. Í raun hafði ég ekki græna glóru hvað ég var búin að koma mér út í. En þegar ég mætti var tekið þvílíkt vel á móti mér og allir voru tilbúnir að kenna mér. Ég þurfti samt sjálf að passa upp á að allir vissu að ég væri bara á öðru ári. Í eitt skiptið spurði ég í sakleysi mínu einn hjúkrunarfræðinginn hvort það væri eitthvað spennandi sem ég gæti fylgst með og hún sendi mig inn á eitt herbergið. Nokkrum mínútum seinna kom hún hlaupandi og sagðist hafa misskilið og haldið að ég væri kandídatslæknir, ekki 2. árs skiptinemi sem vissi bókstaflega ekkert í sinn haus.

Ég var eins og andarungi og elti læknana töluvert mikið. Ég tróð mér líka upp á hjúkrunarfræðingana til að æfa mig að stinga. En ég fékk samt að gera ýmislegt spennandi eins og að taka astrup, nota ómtæki, setja upp æðaleggi og taka blóðprufur. Ég var bara frekar dugleg að “troða mér” með og nýta tækifærið og æfa mig á líkamsskoðun. Ef það er eitthvað sem ég sé eftir þá er það að ég byrjaði ekki strax að troða mér með mismunandi læknum. Fyrst var ég bara með yfirlæknunum sem tóku á móti mér – mér fannst ég hafa svo mikinn tíma á deildinni að ég var of chilluð. Þegar 2 vikur höfðu flogið hjá þá var ég mun duglegri að finna mér eitthvað að gera sjálf. Þá sat ég bókstaflega um læknanna þegar ég sá að nýr sjúklingur kom inn og þegar læknarnir ætluðu inn á herbergin þá kynnti ég mig og spurði hvort ég mætti vera með. Það var alltaf sjálfsagt mál og flestir tóku sér tíma til aðútskýra fyrir mér hvað var í gangi.

Ég fékk að sjá gríðarlega mikið og margt spennandi. Það var magnað að fylgjast með þaulvönum læknum og hjúkrunarfræðingum í mismunandi móttökuteymum. Auk þess að vera á bráðamóttökunni fékk ég að vera tvo daga á sjúkrabílnum. Það verður að segjast að ég naut þess í botn að vera á spítalanum og mig langaði ekki til þess að hætta þegar ég kvaddi fólkið á deildinni.

Steinunn_3
Í sambandi við umgjörðina þá var ég mjög heppin með tengiliði. Reyndar bjó önnur þeirra ekki í Trondheim svo ég hitti hana ekki oft. En þær skipulögðu margt skemmtilegt. Hápunktur ferðarinnar var þegar við fórum í norska hyttu (bústað), skoðuðum Geirangerfjorden og gengum upp á Galdhöpiggen – hæsta tind Noregs.

Einn galli var að við vorum bara 2 skiptinemar í Trondheim. Það hefði kannski verið aðeins skemmtilegra ef við hefðum verið fleiri en það er ekki eitthvað sem maður stjórnar svo maður verður að gera það besta úr því sem maður hefur. Trondheim er gullfalleg og fjölmargir göngutúrar um borgina og meðfram ánni voru gull. Einnig var ég mjög heppin með gistingu. Ég var ekki mjög nálægt spítalanum en ég fékk lánað hjól hjá tengiliðnum svo það var ekkert mál. Ég bjó í íbúð með 3 öðrum stúdentum og í gegnum þau fékk ég að upplifa norska stúdentamenningu, einmitt eins og ég hafði óskað mér.

Steinunn_2