Perú 2016: Hallfríður

Ég fór í skiptinám á almenna skurðdeild í Trujillo, borg í norðurhluta Perú, í júní 2016.

Í Perú er fyrirkomulagið þannig að allir skiptinemarnir fá tvo tengiliði, einn sem maður gistir hjá og annan sem hjálpar manni að finna eitthvað að gera. Þau vilja helst að maður tali spænsku (sem ég gerði eiginlega ekki) en ég fékk að biðja um enskumælandi lækni, sem ég fékk, þó enskan hennar væri vissulega ryðguð.

Ég var líklega mjög heppin og lenti í öruggasta hverfi borgarinnar, með hliði og vörðum inn í götuna. Ég fékk mitt eigið herbergi með sér baðherbergi og svo voru þau meira að segja með húshjálp sem var líka frábær kokkur!

Fólkið sem leitaði á Betlehemspítalann, sem ég mætti á alla virka morgna, var hins vegar ekki eins heppið, en þetta var ódýrasti spítalinn í borginni svo þangað leitaði allt fátækasta fólkið og oft óþarflega seint. Mér leið svolítið eins og ég væri komin nokkur ár/áratugi aftur í tímann miðað við aðbúnaðinn, t.d. allar sjúkraskrár á pappír, ekkert tölvusneiðmyndatæki á spítalanum svo traumasjúklingar fóru í “trauma röntgen” (stundum sendir annað) og ég þurfti oft að leita ansi lengi að sprittbrúsum.

hallfridur2

Á spítalanum fylgdi ég eins konar kennsluteymi og læknirinn var mjög duglegur að leita uppi kennslutækifæri og útskýra. Við vorum til skiptis á legudeildinni, skurðstofunum og bráðamóttökunni. Þar sem ég var virðast læknanemar lítið taka þátt og mest fylgjast með, svo ég skrúbbaði mig t.d. ekkert inn í aðgerðir. Ég fékk samt að fylgjast með alls konar aðgerðum og líka í öðrum sérgreinum. Á bráðamóttökunni var algengasta komuástæðan höfuðáverkar, sem kemur ekki á óvart m.v. nánast enga bílbelta- eða hjálmanotkun. Annars sá ég líka t.d. byssuskotsár, skelfileg legusár, brunasár og helling af óvenju langt gengnum botnlanga- og gallblöðrubólgum með fylgikvillum.

hallfridur4

Perú var annars ótrúlega skemmtilegt og fallegt land, yndislegt fólk og góður matur. Ég ferðaðist í um 11 daga áður en ég byrjaði í skiptunum, sem ég mæli algjörlega með (helst lengri tími ef eitthvað er, fyrir eða eftir). Í Trujillo var mjög gott “social program” og eitthvað um að vera í hverri viku, t.d. út að borða, skoða rústir í nágrenninu, fara á sandbretti og partý/djamm. Svo fórum við skiptinemarnir í helgarferð til Huaraz (fjallabær). Á sama tíma og ég voru fjórir aðrir skiptinemar, tvö frá El Salvador, einn frá Frakklandi og ein frá Kanada. Mér skilst samt að prógrammið hafi verið ennþá betra í júlí, en þá koma fleiri skiptinemar. Það var auðvitað svolítið kalt í Trujillo svona um hávetur, um 20-25°C og sól alla daga en ég fann líklega fyrir 7 regndropum einn morguninn.

 Hefði viljað gera öðruvísi:

  1. Kunna meiri spænsku (lærði ekki spænsku í menntaskóla og æfði mig bara smá í duolingo árið fyrir, en það slapp samt alveg).
  2. Er ennþá miður mín að hafa ekki náð að smakka allt í “food and drinking” partýinu.

Skemmtileg staðreynd: Ég, 164 cm á hæð, var oft lang hæsta manneskjan á stofuganginum.

hallfridur5 hallfridur3 hallfridur1