Perú 2016: Ylfa Rún

Perú 2016: Ylfa Rún

Ég fór í skiptinám til Lima, höfuðborgar Perú, í júní 2016 þá nýbúin með 4. ár. Skiptinámið var í heild frábær og lærdómsríkur tími. Ég fór ásamt Hauki kærastanum mínum og vorum við í skiptum á sama spítala. Við dvöldum hjá fjölskyldu læknanema úti eins og er hefðin í skiptum þar. Fjölskyldan var frábær og vildi allt fyrir okkur gera. Við vorum ávallt velkomin með hvort sem það var fjölskyldumatur á sunnudögum eða stórfjölskyldusamkoma á hátíðisdögum. Þeim var mjög umhugað um að við færum varlega enda Lima gríðarstór og hættuleg borg, þar sem ,,con cuidado” eða ,,farðu varlega” er oftar en ekki hluti af daglegu ,,bless”. Perúbúar eru mjög hjálpsamt og vinalegt fólk og í Perú er sterk frumbyggjamenning. Þeir eru sérstaklega stoltir af matnum sínum og vilja meina að hann sé með því besta sem gerist. Þeir státa sig af hundruðum tegunda kartafla sem samkvæmt heimamönnum hafa meira og minna allar lækningarmátt.

ylfa

Félagslega dagskráin var mjög fín, m.a. farið á söfn og á brimbretti, í bjórsmakk og haldið byrjunar- og lokapartý. Tengiliðirnir okkar sóktu okkur á flugvöllinn og fóru með okkur fyrsta daginn á spítalann. Sérstaklega var annar tengiliðurinn okkar mjög virkur. Hann var ávallt til í að hittast og sýna okkur borgina, kynna okkur fyrir vinum sínum og djamma. Við upplifðum þessa læknanema mjög afslappaða og opna fyrir því að hittast í ljósi þess að í júní er hávetur í Perú og þau á leið í annarpróf áður en vetrarfrí hefst í júlí.

ylfa3

ylfa2

Í Perú er heilbrigðiskerfið þrepaskipt. Efsta stigið eru einkaklíníkur og þangað leitar fólk sem kaupir sér einkaheilbrigðistryggingu. Miðstigið er fyrir fólk vinnandi á viðurkenndum starfsvettvangi og þá er trygging dregin af laununum þeirra. Neðsta stigið er kallað ,,minsa” og er fyrir fátækasta fólkið. Við vorum á minsa spítala. Spítalinn var talsvert langt frá heimilinu og þurftum við þrjá strætóa og eina og hálfa klst til að komast þangað. Við vorum á spítalanum frá 8-12 fyrir hádegi. Okkur hafði báðum verið úthlutuð almenn skurðdeild og eyddum mestum tímanum á skurðstofunum. Skurðstofurnar voru hins vegar fyrir margar aðrar sérgreinar líka og í Perú er opið inná stofurnar svo við gátum fylgst með því sem við vildum. Á spítalanum voru margir kandídatar og nemar að keppast um aðgerðir svo mest megnis vorum við að fylgjast með. Við fengum þó að skrúbba okkur inn líka. Læknanemar og kandídatar töluðu yfirleitt fína ensku en eldri læknar lítið annað en spænsku.

ylfa5 ylfa4

Margt á spítalanum var ólíkt því sem við eigum að venjast hér á landi. Ýmist voru hlutir gamaldags eða báru þess merki að spítalinn sinnti miklum fjölda fólks og aðgengið að þjónustu eftir því. Allar skrár sjúklinga voru enn á pappír og sjúklingar báru sjálfir ábyrgð á að koma með eigin röntgenmyndir sem voru á pappír. Eins keyptu þeir sjálfir og komu með sýkladrepandi krem borið á skurðsár. Skurðhjúkrunarfræðingar voru ekki skrúbbaðir inn í aðgerðir heldur voru aðeins kandídatar að aðstoða. Steríl áklæði voru fjölnota og lítið hirt um fjarlægð við sterílt umhverfi. Upplýsingagjöf til sjúklinga var oft takmörkuð og lítið virðing borin fyrir nekt og berskjöldun sjúklinga á skurðstofum. Aðstaða og áhöld voru einnig oft af skornum skammti. Þar datt engum í hug að kvarta yfir því að það væru 8 sjúklingar í sama herbergi, að þeir þyrftu að hengja þvagpokann í vasa á stuttbuxunum sínum á meðan þeir gengu ganginn eða draga drenið sitt á eftir sér í pappakassa.