Spánn 2014: Bergljót Rafnar

2014-07-10 20.19.54

Höf: Bergljót Rafnar Karlsdóttir

2014-07-28 09.11.35Ég heiti Bergljót og er 5.árs læknanemi. Sumarið 2014 dvaldi ég allan júlí sem skiptinemi í Santander sem er höfuðborg Cantabriuhéraðs á Norður-Spáni. Spánn varð fyrir valinu vegna þess að ég lærði spænsku í framhaldsskóla og vildi bæta hana og Santander vegna þess að ég hafði heyrt góða hluti bæði um borgina og spítalann.

Þegar ég lenti á pínulitlum flugvellinum í Santander komu tveir nefndarmeðlimir og sóttu mig og fóru með mig í íbúðina þar sem ég átti að búa. Þetta var fín íbúð mitt á milli spítalans og miðbæjarins en Santander er lítil borg á spænskan mælikvarða með um 180þúsund íbúa svo hægt var að labba eða taka stuttar strætóferðir allt sem maður vildi fara. Ég fékk einstaklingsherbergi og deildi íbúðinni með þremur Mexíkóbúum, Pólverja og Tékka. Við vorum heppin með það að þetta var eina nemaíbúðin sem var með interneti en hinum u.þ.b. 20 nemunum var dreift um aðrar (netlausar) íbúðir í borginni. Mér leist ekki alveg á blikuna þegar ég kom þar sem það var hellidemba fyrstu tvo dagana en svo fór að skína upp og var fullkomið veður, rúm 20 stig og sólríkt sem hentaði vel fyrir allar fallegu strendurnar í Santander. Það var ekki mikið um ferðamenn nema helst aðra Spánverja og borgin öll er nýleg miðað við það sem gengur og gerist á Spáni svo það var ekki þessi týpíski „gamli bær“ og mannvirki heldur frekar gert út á náttúrufegurð.

2014-07-10 20.19.28

 

Ég fékk inni á lýtaskurðdeild sem var mitt annað val á eftir almennri en ég sé alls ekki eftir
því! Á lýtadeildinni var ég eini læknaneminn lengst af og borin á gullstól af læknunum
þremur allan tímann. Það voru skurðaðgerðir mánudaga, miðvikudaga og föstudaga og svo göngudeildir hjá tveimur lýtalæknunum þriðjudaga og fimmtudaga. Á skurðstofunni fékk ég nánast alltaf að skrúbba mig inn og tók þátt í fjölda aðgerða, meðal annars brjóstnámum og – uppbyggingum, flipaaðgerðum, húðágræðslum og handarkírúgíu. Göngudeildirnar voru líka mjög skemmtilegar, þar voru þrjár samliggjandi stofur í gangi í einu með mismunandi sjúklingum sem voru ýmist að koma prímert til aðgerðarmats eða í post-op eftirlit. Læknirinn hoppaði svo milli stofa eins og hann væri að spila borðtennis á mörgum borðum í einu og afgreiddi málin á leifturhraða með hjúkrunarfræðingunum. 2014-07-10 21.44.17Fólk á Spáni leitar almennt seint til læknis svo tilfellin voru oft heldur ýkt, t.d. húðkrabbamein á stærð við handbolta, en þegar á hólminn er komið er læknirinn í guðatölu og allt sem hann segir, gildir. Vinnudagurinn var alla jafna milli 9 og 14 og það var heldur erfitt fyrir Íslendinginn að bíða svona lengi milli máltíða. Maturinn sem ég fékk á spítalanum var samt ansi góður, þriggja rétta með öllu frá spænskum þjóðarréttum eins og paella og arroz con pollo yfir í klassískan mötuneytiskjúlla og franskar. Ég fékk líka að fara með einum lækninum í blæjubílnum hans yfir í nærliggjandi bæ þegar hann þurfti að skera þar og í önnur hús Marqués de Valdecilla spítalans.

unnamed

Ég var eini Íslendingurinn í hópi um 25 nema sem voru margir Spánverjar en einnig voru
aðrir útlendingar eins og íbúðarfélagar mínir auk Bandaríkjamanna, Kóreubúa og fleira.
Alþjóðanefndin í Santander sótti mig eins og áður sagði á flugvöllinn og keyrði mig þangað
þegar dvölinni var lokið en það var allt og sumt, þau höfðu engin afskipti af okkur og sáu ekki um neina atburði eða ferðir eins og ég átti að venjast frá tengiliðastörfum mínum á Íslandi. Það voru talsverð vonbrigði en við sáum þá bara um að skemmta okkur sjálf og héldum meðal annars alþjóðlegt matar- og drykkjarkvöld. Ég fór einnig í nokkrar stuttar ferðir til dæmis til Pamplona og upplifði San Fermínes hátíðina þar sem menn og naut hlaupa eftir strætum borgarinnar. Spánverjar eru annars mjög hátíðaglaðir og það voru nokkrir frídagar tengdir dýrlingum auk sérstakrar Santander hátíðar með flugeldum, tónleikum og skemmtigarði meðan ég var á svæðinu.

Það hjálpaði mjög mikið að kunna grunnatriði í spænsku og fólk var himinlifandi í hvert skipti sem ég svo mikið sem bauð góðan dag eða bað um skæri á skurðstofunni. Það var frábært í alla staði á spítalanum en þess ber þó að geta að margir samnemenda minna voru ekki svona heppnir því það hafði verið tekið við of mörgum nemum á hinar skurðdeildirnar svo þau fengu varla að gera neitt og hættu því að mæta. Það var mér til happs að vera á lítilli deild þar sem ég var eini neminn og með metnaðarfullan umsjónarmann í einum lækninum sem kunni mjög góða ensku. Ég get tvímælalaust mælt með því að fara í skipti á vegum Alþjóðanefndar, sérstaklega á lýtaskurðdeildina í Santander.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s