Alþjóðanefnd læknanema á Íslandi (IMSIC) er fulltrúi íslenskra læknanema á erlendum vettvangi og kemur fram fyrir þeirra hönd innan Alþjóðasambandi læknanema (International Federation of Medical Student’s Associations – IFMSA), Félagasamtök læknanema á norðurlöndum (Federation of International Nordic medical student’s Organisations – FINO) og skyldum samtökum.
Hlutverk Alþjóðanefndar læknanema er aðallega fólgið í að sjá um stúdentaskipti, bæði íslenskra nema sem fara erlendis og einnig erlendra nema sem dvelja hér yfir sumarmánuðina. Undanfarin ár höfum við sent um 10 íslenska nema erlendis og tekið á móti milli 20 og 30 erlendum nemum.
Þá leitast Alþjóðanefnd læknanema við að auka hvers kyns alþjóðasamstarf og -samskipti læknanema. Að því er reynt að vinna með þáttöku í ráðstefnum og styttri eða lengri verkefnum tengdum læknisfræði og samfélagi t.d. þróunarhjálp eða lýðheilsu.
Alþjóðanefnd var stofnuð árið 1957 og hefur síðan þá verið virkur meðlimur á alþjóðavettvangi, m.a. var forseti alþjóðlegu læknanemasamtakanna IFMSA Björg Þorsteinsdóttir starfsárið 1997 – 1998.
Í stjórn Alþjóðanefndar læknanema sitja 11 nemendur af fyrstu fimm árum námsins, sjá hér: https://imsic.org/um-imsic/nefndin/
Aðalfundur Alþjóðanefndar er haldinn á hverju ári í september eða oktober. Þar fer fram kynning á starfsemi nefndarinnar, yfirlit yfir starfsárið, stjórnarskipti o.fl. Aðalfundur setur lög um starfsemi nefndarinnar. Lög Alþjóðanefndar má sjá hér: https://imsic.org/um-imsic/log-imsic/